fbpx

Um okkur

Úðafoss er elsta starfandi fatahreinsun landsins og verður hún 86 ára á þessu ári. Úðafoss er stofnað á Ísafirði árið 1933 sem hattahreinsun. Ári seinna var hún flutt til Akureyrar þar sem hattahreinsunin var starfrækt þar til fyrirtækið brann til kaldra kola í stórbruna í miðbæ Akureyrar. Þá var fyrirtækið flutt til Hafnarfjarðar þar sem starfsemin var til ársins 1937 þegar flutt var til Reykjavíkur. Þegar til Reykjavíkur var komið var Úðafoss á nokkrum stöðum, fyrst á Skólavörðustíg og síðan á Laugavegi og Grettisgötu áður en starfsemin var flutt á Vitastíg, fyrst gegnt núverandi stað, en frá árinu 1974 hefur það verið á Vitastíg 13.

Á þessum hartnær 90 árum hefur Úðafoss verið í eigu þriggja fjölskyldna. Það var Jón Magnússon sem stofnaði fyrirtækið og rak það til dauðadags árið 1962 en ekkja hans rak það til ársins 1965 þegar Jón Lárus Guðnason og Sigþóra Kristinsdóttir eiginkona hans keyptu það af henni. Árið 1989 fóru Jón Lárus og Sigþóra að draga sig í hlé frá hinum daglega erli og dætur þeirra, Guðrún Linda og Íris Björk, taka við rekstrinum með dyggri aðstoð eiginmanna sinna. Í febrúar 2019 urðu þau tíðindi að hjónin Guðmar Kjartansson og Árný Nanna Snorradóttir festu kaup á rekstrinum og sinna honum í sameiningu.

Úðafoss var fyrsta fatahreinsunin til að bjóða upp á afgreiðslu samdægurs og fram til þessa dags hefur sú þjónusta haldist.